Innlent

Úttekt á peningamálastefnunni þegar um hægist

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að tímabært verði að ráðast í úttekt á virkni peningamálastefnunnar þegar um hægist í því ölduróti sem verið hefur á fjármálalífinu. Þetta kom fram í máli hans í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, vakti athygli á orðum forsætisráðherra á aðalfundi Seðlabankans á föstudag. Þar sagði Geir að til skoðunar ætti að koma að gera óháða úttekt á virkni peningamálastefnunar og þeim tækjum sem Seðlabankinn hefði. Meta þyrfti reynsluna af Seðlabankalögunum frá árinu 2001 og til slíks verks þyrfti að fá hæfustu sérfræðinga innan lands og utan.

Spurði Steingrímur hvenær stæði til að ráðast í slíka úttekt og spurði jafnframt hvers vegna úttektin væri skilgreind svo þröngt. Spurði hann hvort ekki ætti að taka út hagstjórnina þannig að aðgerðir og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar yrði einnig til skoðunar.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði í svari sínu að á undanförnum misserum hefðu verið háværar raddir um það hvort peningamástefnan væri í réttum farvegi eða í öngstræti og hvort Seðlabankinn hefði öll tæki sem hann þyrfti í vopnabúri sínu til þess að takast á við ástandið. Sagðist Geir ekki sammála allri gagnrýni á Seðlabankann en hann teldi rétt að fræðileg úttekt yrði gerð á peningamálastefnunni. Slíkt hefði verið gert víða, þar á meðal í Svíþjóð og Nýja-Sjálandi.

Sagðist hann telja að það væri í senn tímabært að ráðast í slíka úttekt en Íslendingar ættu að taka höndum saman um að koma sér út úr því ölduróti sem nú gengi yfir. Þegar um hægðist væri tímabært að ráðast í úttekt á peningamálastefnunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×