Innlent

Byrgisstúlkan kvartar til umboðsmanns Alþingis

Ólöf Ósk Erlendsdóttir
Ólöf Ósk Erlendsdóttir

Ólöf Ósk Erlendsdóttir hefur kvartað undan Birgi Ottóssyni forstöðumanni þjónustudeildar Félagsbústaða til umboðsmanns Alþingis. Hún sakar hann um einelti og að hafa fjarlægt eigur sínar úr íbúð sem Ólöf var í á þeirra vegum. Það gerði hann án þess að hafa dómsúrskurð og án þess að hafa samband við fjölskyldu Ólafar segir í kvörtuninni. Ólöf afplánar nú dóm í Kvennafangelsinu.

Í kvörtuninni segir að forstöðumaðurinn hafi lagt Ólöfu í einelti frá því hún kom fram í Byrgismálinu og „hann hafi gert allt sem hann getur til að losna við hana."

Ólöf var í íbúð að Fannafelli 12 þegar kviknaði út frá rafmagni í íbúðinni. „Ólöf var þá þegar búin að missa meðvitund vegna of lágs blóðsykurs en hún hafði ekki nærst almennilega síðan myndbandið af henni og Guðmundi lak á netið. Ólöf lá á spítala í nokkra daga og við fengum að svifta hana sjálfræði til að leggja hana inn á áfengis- og vímuefnadeildina og var hún þar í níu daga. Þá gat hún gengið út af lokaðri deild svift sjálfræði og ekkert húsnæði," segir í kvörtuninni sem er skrifuð af móður Ólafar.

Síðan fékk Ólöf annað húsnæði þar sem búslóð hennar var sett inn en hún treysti sér ekki til þess að vera ein þar. Síðan fer hún í meðferð og er í kjölfarið dæmd í 18 mánaða fangelsi. „Þá fellur hún andlega og neyslulega og fannst enandlega allt búið."

Ólöf kvartar til Umboðsmanns vegna þess að „Birgir brýtur stjórnarskrárétt Ólafar þegar hann fer inn í íbúðina þar sem hann var ekki með dómsúrskurð til að fara inn og fjarlægja allt hennar dót og hafði ekki einu sinni samband við okkur sem hann vissi vel að hann gæti þar sem hann hafði reynslu af því frá brunanum í Fannarfelli 12," segir í kvörtuninni.

Vísir hafði samband við Birgi við vinnslu fréttarinnar sem vildi ekkert um málið segja enda hefði verið tekin ákvörðun um að Sigurður Helgi Guðjónsson formaður húseigendafélagsins myndi svara fyrir Félagsbústaði.

Hann vildi ekki fjalla um einstaka mál en lofaði svari við því hvort einhverntíma hefði verið farið inn í íbúð á vegum Félagsbústaða án dómsúrskurðar. Í svari sem nú hefur borist Vísi kemur fram að í tveimur tilvikum nýverið hafi Félagsbústaðir hf. neyðst til að grípa inn í mál á grundvelli neyðarréttar og bráðahagsmunagæslu.

Í svarinu segir að í öðru tilvikinu hafi allt verið í hershöndum í húsinu. „Íbúðin hafði verið dópgreni og aðrir íbúar höfðu hreinlega verið í gíslingu Búið var að brjóta hurð íbúðarinnar og vinna skemmdir á henni og var alls kyns óþjóðalýður farinn að hreiðra um sig og aðrir íbúar hússins voru skelfingu lostnir."

Þar segir einnig að leigjandinn hafi flutt burt hluta af dóti sínu en skilið eitthvað eftir. „Lögreglan var einnig tíður gestur í leit að fíkniefnum. Félagbústaðir hf. töldu leigjandann hafa flutt á brott og sýnt íbúðinni og hagsmunum félagsins fullkomið hirðuleysi og því hafi Félagsbústaðir hf. þurft að setja í nýja hurð og skipta um skrá.

Eins tóku Félagsbústaðir það dót sem leigjandi skildi eftir í algjöru reiðileysi, pökkuðu því og geymdu í búslóðageymslu sinni. Áður en Félagbústaðir gripu til örþrifaráða á grundvelli neyðarsjónarmiða hafði lögreglan komið og handtekið leigjanda og flutt í fangelsi til afplánunar á 18 mánaða fangelsisdóm. Það skýtur enn einni stoð undir réttmæti aðgerða Félagsbústaða hf."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×