Innlent

Segja fjölgun öryrkja hafa mikil áhrif á vinnumarkað

Örorkulífeyrisþegum fjölgaði um rúmlega 620 á fyrri helmingi ársins 2007 og heldur áfram að fjölga á sama hraða og undanfarin ár. Þetta kemur fram í fréttabréfi Samtaka atvinnulífsins.

Vitnað er til talna Tryggingastofnunar og Hagstofunnar sem sýni að öryrkjum fjölgi um fimm prósent miðað við fyrri hluta síðasta árs en þeim hafi fækkað miðað við 2004 og 2005 þegar nýgengi örorku náði sögulegu hámarki.

Samtök atvinnulífsins benda á að í lok síðasta árs hefðu öryrkjar verið orðnir 13.200 sem eru tæp 8 prósent af vinnuafli í landinu. Skipting milli kynja sé á þann veg að karlar séu 40 prósent nýrra lífeyrisþega og konur 60 prósent.

Þá hafi aldursgreining leitt í ljós að meðalaldur örorkulífeyrisþega fari lækkandi og segja samtökin það auka enn á framtíðarskuldbindingar ríkissjóðs og lífeyrissjóða. Þá benda samtökin á að há örorkutíðni undanfarin ár hafi leitt til þess Íslendingum á vinnumarkaði hafi fjölgað mjög lítið þar sem atvinnuþátttaka örorkulífeyrisþega sé lítil. Þetta hafi svo leitt til mikillar eftirspurnar eftir erlendum starfsmönnum.

Reikna samtökin út að fjölgun Íslendinga á vinnumarkaði fyrri helmingi ársins hafi einungis numið tæplega 500 manns en til samanburðar hafi störfum á vinnumarkaði fjölgað um 8.000-9.000 á ári í síðustu mælingum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar eða um 4.000-4.500 á hverju sex mánaða tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×