Innlent

Þorsteinn vann fyrir formann matsnefndarinnar

Andri Ólafsson skrifar
Héraðsdómarinn umdeildi Þorsteinn Davíðsson vann fyrir Pétur Kr. Hafstein árið 1996. "Skiptir ekki máli," segir Pétur sem vék ekki sæti í matsnefnd umsækjenda um starfið.
Héraðsdómarinn umdeildi Þorsteinn Davíðsson vann fyrir Pétur Kr. Hafstein árið 1996. "Skiptir ekki máli," segir Pétur sem vék ekki sæti í matsnefnd umsækjenda um starfið.

Þorsteinn Davíðsson, sem í gær var skipaður dómari við Héraðsdóma Austurlands og Norðurlands eystri, var eitt sinn launaður starfsmaður formanns nefndarinnar sem falið var að meta hæfi hans sem umsækjanda.

Eins og Vísir greindi frá í gær var Þorsteinn Davíðsson ekki metinn hæfasti umsækjandinn um stöðuna sem Árni M. Mathiesen skipaði í gær. Þrír umsækjendur voru metnir hæfari en Þorsteinn.

Nefndin sem metur hæfi umsækjenda starfar eftir lögum um dómstóla. Nefndarmenn eru tilnefndir af Hæstarétti, Dómarafélagi Íslands og Lögmannafélagi Íslansd.

Lára V. Júlíusdóttir, sem tilnefnd var af lögmannafélaginu, lýsti sig vanhæfa þar sem hún hafði unnið lögfræðistörf fyrir einn umsækjenda.

Pétur Kr. Hafstein, sem tilnefndur var af Hæstarétti lýsti sig ekki vanhæfan þótt einn umsækjenda, Þorsteinn Davíðsson, hafi verið launaður starfsmaður forsetaframboðs Péturs árið 1996.

Þetta staðfesti Pétur við Vísi í morgun. Aðspurður hvort hafi ekki talið rétt að víkja sæti vegna þessa svaraði Pétur: "Ég taldi það ekki skipta neinu máli."
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.