Innlent

Allir trúnaðarmenn Strætó hættir

60% vagnstjóra hafa hætt eftir að nýja kerfið var tekið í notkun.
60% vagnstjóra hafa hætt eftir að nýja kerfið var tekið í notkun. MYND/365

Fimm starfsmenn Strætó BS eru hættir sem trúnaðarmenn félagsins. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fimmmenningunum. Deilur hafa verið á milli trúnaðarmannanna og yfirstjórnar Strætó.

Málið tengist kokkteilasamkomu sem haldin var fyrir fráfarandi trúnaðarmenn fyrirtækisins í síðustu viku. Í DV í dag kemur fram að boðið hafi verið upp á áfengi í boðinu en eftir það fóru nokkrir hinna nýju trúnaðarmanna niður á Hlemm til þess að heilsa upp á vinnufélaga. Síðan tóku þeir Strætó heim en fengu bréf frá yfirstjórninni daginn eftir. Þar var varað við áminningu í starfi vegna ölvunnar.

Yfirlýsingu trúnaðarmannana má lesa hér að neðan.

Að vel athuguðu máli höfum við undirritaðir, trúnaðarmenn og varatrúnaðarmenn hjá Strætó ákveðið að segja okkur frá öllum afskiptum af trúnaðarmannastörfum fyrir Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar.

Okkur þykir það leitt að félagið okkar skuli hafa verið dregið inn í deilur við Strætó að ósekju og viljum taka það skýrt fram að við höfum fengið allann hugsanlegan stuðning og velvilja þaðan.

Vegna yfirlýsinga, og ógnanna framkvædastjóra Strætó bs. og deildarstjóra akstursdeildar, við okkur og í okkar garð er sjálfgefið að okkar starfi er lokið. Við höfum ekki taugar né geð að eiga í stríði við atvinnurekanda okkar.

Framkoma og atvikaröð þar sem allur mögulegur tilbúningur hefur verið ataður yfir okkur skýrir okkar mál og hefur lögreglunni m.a. verið beitt í þeirri atburðarás sem lýsir þó nokkuð þeim stjórnunarstíl sem viðhafður er.

Síðan nýtt leiðakerfi var sett á hjá strætó hafa hátt í 60% af vagnstjórum hætt störfum hjá fyrirtækinu. Afar erfitt hefur verið fyrir fyrirtækið að endurnýja allt þetta brotthvarf.

Það er vonandi að nýr meirihluti í Borgarstjórn fari nú í að skoða hvað er raunverulega að hjá þessu fyrirtæki.

Virðingarfyllst

Jóhannes Gunnarsson, 1. trúnaðarmaður,

Friðrik Róbertsson, 2. trúnaðarmaður,

Ingunn Guðnadóttir, 3. trúnaðarmaður,

Guðmundur Ingi Pétursson, varatrúnaðarmaður,

Ingólfur Eðvard Skarphéðinnsson, varatrúnaðarmaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×