Innlent

Drengurinn enn þungt haldinn - ökumaðurinn ófundinn

Fjögurra ára gamall drengur liggur enn þungt haldinn á gjörgæsludeild eftir að hann varð fyrir bíl í Keflavík í gær. Ökumaður bílsins flúði af vettvangi og er ófundinn. Íbúar við götuna krefjast þess að hámarkshraði þar verði lækkaður.

Slysið varð á Vesturgötu í Keflavík um fimmleytið í gær. Það var ökumaður bíls sem kom að skömmu eftir að slysið varð sem fann drenginn. Farið var með hann fyrst á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en síðan með forgangshraði á sjúkrahús í Reykjavík. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lokaði öllum gatnamótum á leið sjúkrabílsins til að hann kæmist sem hraðast á Landspítalann með barnið en aksturinn þangað tók sextán mínútur. Drengurinn liggur nú á gjörgæsludeild Landspítala-Háskólasjúkrahús. Hann er mikið slasaður og er haldið sofandi í öndunarvél.

Ökumaðurinn sem kom að slysinu telur sig hafa séð dökka skutbíl aka á brott af slysstað og hefur lögreglan síðan í gær leitað að ökumanni þess bíls. Lögreglan stöðvaði fjölda bíla í gær og skoðaði, hún bankaði einnig upp á hjá fólki grennd við slysstað. Lögreglan hefur hins vegar enn sem komið er litlar vísbendingar um ökumann bílsins sem stakk af.

Íbúar við götuna þar sem slysið varð hafa lengi haft miklar áhyggjur af hraðaakstri í götunni en þeir hafa meðal annars sent bæjaryfirvöldum óskir um úrbætur. Í morgun fylltu þeir götuna af bílum til að knýja á um að hraðahindranir verði settar upp í götunni og að hámarkshraði verði lækkaður. Engar hraðahindranir eru á þeim kafla sem slysið varð á og hámarkshraði í götunni er fimmtíu en íbúar vilja að hann sé þrjátíu. Hljóðið var þungt í íbúunum í morgun en þeir segja ótækt að hraðaakstur eigi sér þar stað þar sem fjölmörg börn búi við götuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×