Innlent

Unglingsstúlka tókst á loft í veðurhamnum á Siglufirði

Í nógu hefur verið að snúast fyrir Björgunarsveitina Stráka á Siglufirði.
Í nógu hefur verið að snúast fyrir Björgunarsveitina Stráka á Siglufirði. MYND/Vilhelm

Unglingsstúlka tókst á loft í vindhviðu á Siglufirði í nótt en þar hafði Björgunarsveitin Strákar í nógu að snúast vegna hvassviðris.

Sveitin var fyrst kölluð út um þrjúleytið til þess að festa þakplötur á sambýli í bænum. Þegar sveitin var á leið aftur í hús lét lögregla vita að þak væri að fjúka af öðru húsi.

Þegar björgunarsveitin kom þar að var fjölskyldan komin út úr húsinu og var skipað að fara þegar inn aftur þar sem fjúkandi þakplötur eru mjög hættulegar. Veður var mjög slæmt á þessum tíma og tókst unglingsstúlkan af heimilinu hreinlega á loft í einni hviðunni eftir því sem segir í tilkynningu Landsbjargar.

Lauk sveitin störfum þar um sjöleytið en um ellefuleytið var hún aftur kölluð út þegar 11 plötur losnuðu í einu lagi af Roaldsbragganum við Síldarminjasafnið. Ein plata lenti ofan í bryggunni og fór þar í gegnum þrjá tveggja tommu þykka planka. Er aðförunum lýst eins og farið hafi verið með keðjusög í bryggjuna. Björgunarsveitir hafa síðan þá verið á ferð um bæinn, tínandi upp lauslega muni, eins og öskutunnur, um allan bæ.

Fjölmörg útköll um allt land

Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út víðar á landinu undanfarinn sólarhring. Fyrsta útkallið kom síðdegis í gær en þar óskaði bóndinn á Hólum á Rangárvöllum eftir aðstoð Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu vegna þakplatna sem voru að losna á íbúðarhúsinu.

Þá voru björgunarsveitir á Austurlandi kallaðar út seinni partinn í gær til að aðstoða fólk sem var fast í bílum upp á Öxi og Fjarðarheiði. Þá reyndi á Björgunarfélag Vestmannaeyja í gærkvöld þar sem vindhraðinn mældist allt að 49 metrar á sekúndur og þakplötur og klæðningar fóru að losna af húsum.

Enn fremur var Björgunarsveit Skagfirðingasveitar kölluð út laust eftir miðnætti í gær til að hefta þakplötufok á Sauðárkróki og morgun hefur Hjálparsveitar Skáta í Hveragerði aðstoðað bíla í vandræðum á Hellisheiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×