Innlent

Dæla olíumenguðum sjó úr lestum Axels

Slökkviliðið á Akureyri hefur verið kallað út til að dæla olímenguðum sjó úr lestum flutningaskipsins Axels á Akureyri.

Hafnaryfirvöld óskuðu eftir aðstoð slökkviliðsins á Akureyri í morgun við að dæla sjó upp úr framlest flutningaskipsins Axels. Axel liggur við Oddeyrarbryggju á Akureyri, laskaður eftir strand skammt frá Hornafirði.

Leki kom upp í kjölfar strandsins og að sögn Þorbjörns Haraldssonar slökkviliðsstjóra er vatnið í framlestinni olíumengað. Því þarf að farga því með viðeigandi hætti og er vatninu dælt á bíla Olíudreifingar og þeir flytja svo vatnið í Olíubirgðarstöð í Krossanesi.

Axel var á siglingu með frystan fisk þegar skipið steytti á skeri og er nú búið að uppskipa megninu af farmi skipsins. Neðsti hluti farmsins er ónýtur þar sem vatn og olía komst í fiskinn. Það verður ekki fyrr en uppskipun er lokið og öllum olíumenguðum sjó hefur verið dælt úr skipinu sem hægt verður að færa það til og í kví. Þá getur viðgerð hafist en skipið er skemmt á 18 metra kafla framan til eftir áreksturinn við blindskerið.

Eigandi útgerðar skipsins, Dregg Shipping, hefur sagt að minnstu hafi munað að skipið sykki í kjölfar árekstrarins. Lögreglan hefur hafið skýrslutökur af skipverjum en bæði er þáttur vélstjórans sem óhlýðnaðist skipstjóranum til rannsóknar sem og orsakir strandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×