Innlent

Samgöngur í lamasessi vegna illviðris

Samgöngur í landinu hafa legið meira og minni niðri í allan morgun vegna illviðris. Öllu innanlandsflugi var aflýst í morgun og þá var Hellisheiðinni lokað og vegfarendum bent á að fara Þrengslin. Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út til aðstoða ökumenn.

Vonskuveður hefur verið á landinu öllu í nótt og í morgun og á hálka og éljagangur á flestum leiðum. Óveður er á Holtavörðuheiði og stórhríð á Steingrímsfjarðarheiði og Öxnadalsheiði. Í Snæfellsbæ sló rafmagni tímabundið út í morgun vegna ísingar á rafmagnslínum.

Öllu innanlandsflugi var aflýst í morgun vegna veðurs og óvíst hvenær flug hefst að nýju.

Hellisheiðinni var lokað í morgun vegna hálku og hvassviðris og vegfarendum bent á að fara Þrengslin. Lögreglan á Selfossi hefur í morgun aðstoðað fjölmarga bíla sem lent hafa í vandræðum á heiðinni en þar hafa vindhviður farið upp í 30 metra á sekúndu. Þá voru björgunarsveitir einnig kallaðar út til að aðstoða ökumenn í vandræðum. Engan hefur sakað í óhöppunum.

Starfsmenn Vegagerðarinnar hafa verið síðan klukkan fjögur í morgun að salta og moka vegi á Hellisheiðinni.

Búist er áframhaldandi stormi eða ofsaveðri fram á nótt, þó síst á norðaustanverðu landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×