Innlent

Lóðasamningur greiðir fyrir viðræðum LHÍ og Samson

MYND/GVA

Makaskiptasamningur sem Reykjavíkurborg og Samson Properties hafa gert vegna nokkurra lóða í miðborginni greiðir fyrir viðræðum Listaháskólans og Samson um lóð fyrir fyrrnefnda aðilann í miðbænum. Þetta segir Hjálmar H. Ragnarsson, rektor Listaháskóla Íslands, sem vonast til að viðræður við Samson verði til lykta leiddar á næstu dögum.

Hjálmar segir að Listaháskólinn hafi verið í viðræðum við Samson um lóð í miðborginni frá því í ágúst og að góður andi hafi verið í  þeim viðræðum. Hann tekur skýrt fram að samningar hafi ekki tekist en vonast til að saman gangi með aðilunum á næstu dögum í kjölfar samninga borgarinnar og Samson í dag. Hugmyndir eru uppi um að Listaháskólinn verði reistur á svokölluðum Frakkastígsreit en jafnframt að hann geti stækkað yfir Hverfisgötuna.

Geta notað lóð í Vatnsmýri í samningaviðræðum

Hjálmar bendir á að skólinn hafi allt frá stofnun hans óskað eftir lóð til uppbyggingar í miðborginni en skólinn er nú dreifður um borgina. Ákveðið var að úthluta skólanum lóð í Vatnsmýrinni. „Við getum nota þá lóð í viðræðum okkar við aðila um aðra lóð í miðbænum," segir Hjálmar og segir lóðina meðal þess sem rætt er um í viðræðunum við Samson Properties.

Aðspurður segir hann að ef allt gangi að óskum og Listaháskólinn fái lóð við Laugaveg sé stefnt að því að flytja inn í nýtt húsnæði þar eftir þrjú til fjögur ár. „Þetta er hins vegar ekki orðið," tekur Hjálmar skýrt fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×