Innlent

Málefni lífeyrisþega tekin fyrir milli umræðna um fjárlög

MYND/Vilhelm

Til stendur að taka fyrir sérstaklega málefni aldraðra og öryrkja í starfi fjárlaganefndar á milli annarrar og þriðju umræðu um fjárlögin.

Þetta kom fram í ræðu Gunnars Svavarssonar, formanns fjárlaganefndar, þegar hann mælti fyrir áliti meirihluta nefndarinnar við upphaf annarrar umræðu um fjárlögin í dag. Gunnar benti á að til stæði að flytja málefni aldraðra og öryrkja að mestu undir félagsmálaráðuneytið. Sagði hann mikilvægt að þau fyrirheit sem lagt hefði upp með til að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja gengju eftir og Alþingi gæti þá stutt breytingartillögur þar að lútandi.

Gunnar benti á að á næstu dögum væri von á niðurstöðum nefndar á vegum félagsmálaráðherra sem skipuð hefði verið til að gera tillögur að því bæta hag lífeyrisþega strax á næsta ári. Unnið væri að því að þær tillögur yrðu ræddar í þriðju umræðu um fjárlagafrumvarpið.

Gunnar vék nokkuð að vinnu við fjárlög og sagði afar mikilvægt að vel tækist til við gerð rammafjárlaga á næstu árum. „Það er ekki heppilegt að stór hluti af tíma fjárlagnefndar fari í það á þessum tíma ársins að hitta aðila vegna einstakra verkefna vítt og breitt hringinn í kringum landið - það má gera á öðrum tíma" sagði Gunnar.

Þá sagðist hann vilja styrkja eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmd fjárlaga og vísaði til þess að á undanförnum árum hefð allt að fjórðungur fjárlagaliða ráðstafað fjármunum umfram heimildir. „Í samanburði við þær þjóðir sem við berum okkur gjarnan við þekkist það ekki að ráðstöfun fari fram án heimildarákvæða. Það er því hlutverk okkar allra sem komum að fjárlagagerðinni og framkvæmd fjárlaga að tryggja að við höldum okkur við þann ramma og það skipulag sem okkur er skapað" sagði Gunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×