Innlent

Þriðja sinn sem Gæslan beitir íhlutun til að draga úr hættu

Ný ákvæði laga um Landhelgisgæsluna sem gerir henni kleift að taka yfir stjórn skipa voru sett í kjölfar strands Vikartinds. Þegar gæslan yfirtók stjórn Axels í gær var það í þriðja sinn sem Landhelgisgæslan beitir íhlutun til að draga úr hættu á hafi úti en aldrei áður hefur þótt ástæða til að yfirtaka stjórn skips.

Landhelgisgæslan yfirtók stjórn Axels síðdegis í gær þar sem óvissa ríkti um hvort skipstjóri skipsins hefði fulla stjórn á aðstæðum um borð. Eins og greint var frá í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi þá neitaði yfirvélstjóri skipsins að fara að fyrirmælum skipstjórans.

Ný lög um Landhelgisgæsluna frá árinu 2004 gera Landhelgisgæslunni kleift að grípa til íhlutunar og gera þær ráðstafanir sem taldar eru nauðsynlegar á hafsvæðinu innan mengunarlögsögu Íslands til að koma í veg fyrir eða draga úr hættu sem hafi eða ströndum stafar af bráðamengun. Í því felst að gæslunni er heimilt að yfirtaka stjórn skipa sé fyrirmælum hennar ekki fylgt.

Þá gefa lög um Landhelgisgæsluna sem sett voru í fyrra gæslunni heimild til að banna stjórnanda skipa að halda til hafnar ef grunur leikur á um brot á lögum gegn siglingarvernd eða til að binda enda á brotastarfssemi. Landhelgisgæslan hefur aðeins þrisvar beitt þessum ákvæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×