Innlent

Minna fé til nýs háskólasjúkrahúss en áætlað var

MYND/Hari

Lagt er til að framlag til nýs háskólasjúkrahúss á lóð Landspítalans verði lækkað um sjö hundruð milljónir króna í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar vegna fjárlagafrumvarps næsta árs. Fram kemur í álitinu að ljóst sé að framkvæmdir muni ekki fara eins hratt af stað og áformað var og því er lagður til einn milljarður til verkefnisins á næsta ári.

Enn fremur gerir meirihluti fjárlaganefndar tillögu að 200 milljóna króna viðbótarfjárveitingu til að styrkja rekstur Landspítalans og kemur það til viðbótar rúmlega 800 milljóna króna hækkun í fjárlagafrumvarpi á milli ára og tillögu um 1,8 milljarðs króna aukafjárveitingu í fjáraukalögum 2007. Með þessu á að koma greiðslustöðu sjúkrahússins í jafnvægi og gera stjórnendum kleift að reka stofnunina innan fjárheimilda.

Þá er lagt til að St. Jósefsspítali-Sólvangur fái 180 milljónir króna í aukafjárveitingu samkvæmt nefndarálitinu en þær eiga að styrkja rekstur sjúkrahússins og gera því kleift að taka við auknum verkefnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×