Innlent

Segir Gæsluna aldrei hafa yfirtekið stjórn skipsins

Flutningarskipið Axel.
Flutningarskipið Axel. MYND/Landhelgisgæslan

Bjarni Sigurðsson forsvarsmaður hjá Dreggjum ehf. sem er eigandi flutningaskipsins Axels, segir frétt Stöðvar 2 í kvöld vera „út úr kortinu". Þar var sagt frá því að Landhelgisgæslan hafi farið um borð í skipið og tekið stjórnina í kjölfar þess að vélstjórinn hafði neitað að dæla sjó úr skipinu. Þett segir Bjarni vera kolrangt, og að skipstjóri skipsins hafi fulla stjórn um borð og hafi alltaf haft.

„Þetta er bara vitlaus frétt, við erum með fulla stjórn á skipinu," segir Bjarni í samtali við Vísi. „Það eina sem Landhelgisgæslan gerði var að koma með auka dælu um borð." Hann segir að aldrei hafi komið til tals að Gæslan tæki yfir stjórn skipsins en hann segir rétt að vélstjórinn hafi á einum tímapunkti neitað að verða við tilmælum skipstjóra um að dæla sjó úr skipinu.

„Við vorum með íslenskan vélstjóra sem fór um borð þegar skipið stoppaði á Fáskrúðsfirði. Hann tók að sér vélstjórnina og við munum ræða við hinn vélstjórann þegar skipið kemur til Akureyrar í nótt." Bjarni segir að ekki hafi komið til átaka og að maðurinn hafi ekki verið handtekinn eða neitt slíkt. „Við höfum ekki náð af honum tali og vitum því ekki hvað honum gekk til," segir Bjarni Sigurðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×