Innlent

Fasteignamarkaðurinn ekki dauður en hefur róast

Breki Logason skrifar
Stefán Hrafn Stefánsson hdl og löggiltur fasteignasali hjá Stórborg fasteignasölu.
Stefán Hrafn Stefánsson hdl og löggiltur fasteignasali hjá Stórborg fasteignasölu.

„Eins ótrúlegt og það hljómar er markaðurinn ekki alveg dauður en hann hefur róast á síðustu vikum," segir Stefán Hrafn Stefánsson hdl og löggiltur fasteignasali á Stórborg fasteignasölu.

Stefán segir íbúðamarkaðinn hafa róast eftir fræga yfirlýsingu forsætisráðherra á dögunum og vegna aðstæðna á vaxtakjörum og lánum bankanna. „Þetta hefur dregið móðinn úr mönnum en íbúðamarkaðurinn er ekki dauður. Það eru ennþá lán í boði bæði hjá Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðunum á góðum kjörum," segir Stefán og bætir við að atvinnuhúsnæðismarkaðurinn sé ennþá nokkuð fjörugur.

Hann segir atvinnuhúsnæðismarkaðinn oft haldast í hendur við íbúðamarkaðinn en menn séu ekki farnir að sjá fyrir endann þar ennþá. „Það verður einhver hreyfing þar núna fyrir áramót þar sem menn og fyrirtæki eru að kaupa og selja útaf skattamálum, við sjáum ekki betur en að það haldist eitthvað fram á næsta ár."

Stefán segir fólk vera að bíða átekta með að hreyfa sig og um leið fari byggingaraðilar varlega og jafnvel fresti framkvæmdum á meðan málin eru að þróast.

Hann segir einnig að verðið á markaðnum sé ekki að lækka neitt áberandi en á móti komi að það sé heldur ekki að hækka. „En skynsemin segir manni að með fjölda nýbygginga þá muni eitthvað undan láta."

Stefán segir að ekki ríki nein uppgjöf né svarsýni í fasteignabransanum, menn séu frekar viðbúnir rólegheitum og að jafnvægi komist á markaðinn aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×