Innlent

Telur RÚV geta fengið 5 milljónir fyrir Áramótaskaupsauglýsingu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ingvi Jökull Logason er formaður Samtaka íslenskra auglýsingastofa.
Ingvi Jökull Logason er formaður Samtaka íslenskra auglýsingastofa.

Ingvi Jökull Logason, formaður Samtaka íslenska auglýsingastofa, telur að sú nýbreytni Ríkisútvarpsins að vera með sextíu sekúndna auglýsingapláss í áramótaskaupinu sé mjög athyglisverð.

„SÍA hefur ekki myndað sér neinar skoðanir á þessu en ég get sagt fyrir sjálfan mig að þetta er ný og athyglisverð tilraun," segir hann. „Þetta er svolítið svipað og auglýsingatíminn í Super Bowl af því að þetta er dagskrárliður sem stærstur hluti þjóðarinnar horfir á," bætir hann við.

Ingvi Jökull segist hins vegar ekki vera viss um að fyrstu viðbrögð neytenda verði mjög góð. „Áramótaskaupið er búið að vera án auglýsingatíma í öll þessi ár og ég er ekki viss um að fyrstu viðbrögð við auglýsingum verði mjög góð," segir Ingvi. Hann telur þó að Ríkissjónvarpið eigi auðveldlega að geta fengið fimm milljónir króna fyrir sextíu sekúndna auglýsingu.

Páll Magnússon útvarpsstjóri sagði í samtali við Vísi í gærkvöld að Ríkisútvarpið hefði ákveðið að vera með 60 sekúndna auglýsingapláss í næsta áramótaskaupi, sem myndi koma í hlut hæstbjóðanda. Um tilraun væri að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×