Innlent

Varðskipsmenn um borð í Axel

Dæling gengur nú vel úr Flutningaskipinu Axel sem lónar úti á Vopnafirði eftir að leki kom að skipinu um klukkan sjö í morgun.

Björgunarsveitarmenn fóru út í skipið með dælurnar en þá var um metra djúpur sjór í framlestinni og skipsdælurnar réðu ekki við dælinguna vegna krapa.

Skipstjórin á Axel hafði líka beðið um aðstoð og dælur þegar skipið var statt út af Norðfirði um miðnætti en afturkallaði beiðnina þegar björgunarmenn voru komnir á vettvang.

Varðskip er væntanlegt að skipinu í hádeginu og verða þá dælur úr því hífðar um borð og hefur skipstjórinn fallist á að mannskapur af varðskipinu verði um borð þar til skipið kemst í höfn. Varðskipið mun líka fylgja því. Hefur skipið tekið stefnuna á Akureyri.

Göt á skrokk Axels

Fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni og Landsbjörgu að við skoðun á Fáskrúðsfirði í gærkvöld hafi komið í ljós göt á skrokk flutningskipsins sem þó voru aðeins inni í lokuð rými í skipinu. Ekki var því talin hætta á að leki kæmist að lestum. Því var í samráði við sérfræðinga ákveðið að skipið skyldi halda til Akureyrar þar sem áætlað er að það fari í slipp.

Hins vegar varð vart við leka þegar skipið var statt úti fyrir Norðfjarðarflóa um klukkan ellefu í gærkvöld. Björgunarskipið Hafbjörg var sent á staðinn með dælur og mengunargirðingar voru gerðar tiltækar.

Einnig voru gerðar ráðstafanir til að taka mætti skipið til hafnar á Neskaupstað. Um miðnættið kom í ljós að dælur skipsins höfðu vel undan að dæla sjó úr lestunum sem reyndist ekki vera olíumengaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×