Innlent

Skipstjóri Axels óskar eftir aðstoð út fyrir Vopnafirði

Flutningaskipið Axel úti fyrir Hornafjarðarósi í gær.
Flutningaskipið Axel úti fyrir Hornafjarðarósi í gær. MYND/Hornafjörður.is

Skipstjóri á Flutningaskipinu Axel, sem strandaði út af Hornafirði í gærmorgun, kallaði eftir aðstoð fyrir klukkustund þar sem skipið lónar nú úti fyrir Vopnafirði.

Hann biður um dælur þar sem leki sé kominn að skipinu og eru björgunarmenn á leið út. Hugsanlega verða fleiri björgunarskip send á vettvang.

Skipið var á siglingu áleiðis til Akureyrar þar sem til stendur að taka það í slipp til viðgerðar. Fyrst eftir strandið í gær var því siglt inn til Fáskrúðsfjarðar, þar sem kafarar könnuðu skemmdir, en síðan var haldið af stað norður.

Þegar skipið var statt út af Norðfirði laust fyrir miðnætti óskaði skipstjóri eftir að björgunarskip yrði sent til móts við skipið með dælur þar sem leki virtist vera að ágerast í lestinni en þegar til kom þurfti ekki á þeim að halda.

Skipstjórinn afþakkaði jafnframt fylgd varðskips. Það skýrist ekki fyrr en í sjóprófum hvað olli strandinu en skipið hafði losnað af skerinu og rekið upp undir land þegar lóðsbáturinn frá Höfn náði að draga það aftur út en þá komst vélin aftur í gang




Fleiri fréttir

Sjá meira


×