Innlent

Segir verktakafyrirtæki reyna að græða á félagslegum afslætti

Borgarfulltrúi Samfylkingarinnar óttast að verktakafyrirtæki í Reykjavík sé að reyna stinga afslætti sem eingöngu er ætlaður félagslegum íbúðaúrræðum í eigin vasa. Fyrirtækið hafi fengið afslátt af lóða- og gatnagerðargjöldum en ætli nú að selja íbúðirnar á fullu markaðsverði til ríkisins.

Um er að ræða íbúðir á lóð númer 6 við Starengi í Grafarvogi. Lóðinni var úthlutað til verktakafyrirtækisins Starengi ehf. árið 2004 með þeirri kvöð að þar yrðu staðsettar leiguíbúðir fyrir námsmenn. Í staðinn fékk fyrirtækið afslátt af lóða- og gatnagerðargjöldum.

Fyrirtækið hóf nýlega viðræður við ríkið sem ætlar kaupa íbúðirnar vegna átaks í íbúðamálum geðfatlaðra. Hefur fyrirtækið óskað eftir því við borgaryfirvöld að kvöðum af íbúðunum verði aflétt til þess að af sölunni geti orðið.

Umsókn Starengis ehf var tekin fyrir á fundi borgarráðs síðastliðinn fimmtudag en þar óskaði Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, eftir því að málinu yrði frestað.

Í samtali fréttastofu sagðist Björk hafa undir höndum upplýsingar sem bentu til þess að Starengi ehf ætli að selja íbúðirnar á fullu markaðsvirði til ríkisins. Segir hún að með því sé fyrirtækið reyna að hagnast á þeim afslætti sem því var upphaflega gefinn - afslætti sem eingöngu sé gefinn til félagslegra úrræða og ekki sé ætlað að enda í vasa verktakafyrirtækja.

Á vef Fasteignmats ríkisins kemur fram að íbúðirnar séu metnar á allt að 70 milljónir króna. Samkvæmt upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu hefur ríkið nú þegar ákveðið að ganga að tilboði eiganda íbúðanna en ekki fengust upplýsingar um kaupverð.

Ekki náðist í eiganda Starengis ehf. í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×