Fótbolti

Ólafur virðir ástæður Eiðs Smára

"Það eru persónulegar ástæður fyrir því að Eiður dregur sig út úr hópnum og ég gef þær ekki upp í trúnaði við leikmanninn. Ég tók þessar ástæður góðar og gildar," sagði Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari þegar Vísir spurði hann út í Eið Smára Guðjohnsen, sem hefur dregið sig úr íslenska landsliðshópnum fyrir leikinn gegn Dönum í næstu viku.

"Það er auðvitað slæmt að missa Eið út úr hópnum því hann er besti fótboltamaður Íslands. Það er mikið áfall fyrir okkur að geta ekki notað hann. Ég var auðvitað búinn að reikna með því að Eiður yrði með og var búinn að stilla Eiði upp í ákveðna stöðu í byrjunarliðinu, en nú verð ég að finna nýjan mann í þá stöðu. Ég breyti ekki þeim hugmyndum sem ég hef um liðið þó hann detti út - það kemur bara nýr maður inn í staðinn."

Ólafur valdi Eyjólf Héðinsson frá Gais í Svíþjóð inn í hópinn í stað Eiðs Smára.

"Eyjólfur er klókur fótboltamaður með mikla hlaupagetu og mig langaði dálítið að kíkja á hann og vita hvað honum hefur farið fram þarna í Svíþjóð. Ég þekki hann frá gamalli tíð þegar ég var hjá ÍR og svo hef ég auðvitað séð til hans í úrvalsdeildinni hérna heima," sagði Ólafur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×