Innlent

Hverflar Fljótsdalsstöðvar snúast

Kárahnjúkavirkjun hóf raforkuframleiðslu í dag, sjö mánuðum á eftir áætlun. Jökulsá á Dal, sem í árþúsundir hefur runnið um Jökuldal, steypist nú í sexhundruð metra háum neðanjarðarfossi á aflvélar Fljótsdalsstöðvar og sameinast svo Lagarfljóti.

Fimm árum eftir að framkvæmdir hófust við gljúfrið mikla við Kárahnjúka var komið að stóru stundinni í dag. Það var laust fyrir klukkan tvö sem Franz Hookstögen frá austurríska vélaframleiðandanum Vatech ræsti fyrstu aflvélina. Hverfillinn snerist fyrst hægt en eftir því sem vatnslokinn opnaðist betur fóru hjólin að snúast hraðar. Þar með var búið að hleypa vatni Jöklu úr 599 metra fallhæð á fyrstu vélina og hún sett á fullan snúningshraða.

Afhending orku átti að hefjast 1.apríl í vor, fyrir sjö mánuðum. Erfiðleikar sem einn risaboranna þriggja lenti í við borun aðrennslisganga undir Þrælahálsi eru helsta ástæða seinkunar.

Þau umskipti á mestu jökulá Austurlands sem við verðum hér vitni að eru í raun ótrúleg. Ímyndið ykkur ef Ölfusá væri stífluð við Selfoss og hún sett í jarðgöng alla leið til Reykjavíkur. Það er nokkurn veginn þetta sem nú er búið að gera við Jökulsá á Dal. Hún hefur nú verið færð úr einum dal yfir í annan, með fjörutíu kílómetra jarðgöngum og blandast Jökulsá í Fljótsdal áður en hún sameinast Lagarfljóti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×