Innlent

Átta útköll á fjórum dögum hjá Ingunni

Björn Gíslason skrifar

„Þetta er meira en undanfarin ár," segir Bjarni Daníelsson, formaður Björgunarsveitarinnar Ingunnar á Laugarvatni sem staðið hefur í ströngu frá því á fimmtudag við að bjarga rjúpnaveiðimönnum af hálendinu fyrir ofan uppsveitir Árnessýslu. Frá því að rjúpnaveiðitímabilið hófst á fimmtudag og þar til í nótt var sveitin kölluð út átta sinnum vegna rjúpnaveiðimanna í vandræðum.

Sveitin var kölluð út í gærkvöld vegna bíls sem lent hafði ofan í gili norðan Rauðafells en par í honum slapp ómeitt. Þá var Ingunn kölluð út í nótt vegna tveggja bíla sem festust í krapa og aur á Rótarsandi. Voru þeir illa búnir til ferða á þessum slóðum.

Menn átta sig ekki á aðstæðum

Bjarni segir þennan mikla fjölda útkalla skýrast af aðstæðum. „Það hefur fallið úrkomumet og jarðvegurinn er gegnsósa af vatni. Yfir þetta leggst svo smá frostkrapi sem heldur ekki. Svo fara menn út á vegslóða sem bera ekki bílana og þeir festast," segir Bjarni.

Bjarni telur þó að þessi átta dæmi séu aðeins toppurinn á ísjakanum og mun fleiri hafi fest sig um helgina. „Menn hafa líka verið að bjarga sér sjálfir og hver öðrum," segir Bjarni og segir að til dæmis hafi hann fengið upphringingu í dag frá manni sem hafði skilið eftir bíl sinn, líklegast á Uxahryggjaleið. Sá var að draga tvo bíla sem fastir voru en festi sig svo sjálfur.

Menn almennt vel búnir

Aðspurður hvort menn sem sveitin hafi komið til aðstoðar séu illa búnir segir Bjarni að flestir séu vel búnir. Hann hrósar mönnum fyrir vera vel tækjum búnir og með fjarskiptin í góðu lagi. „Menn hafa kannski ekki varað sig á aðstæðum," segir Bjarni og hvetur rjúpnaveiðimenn að vera ekki einir á ferð ef hjá því verður komist. Jafnframt bendir hann mönnum á að fara bara aðalstígana á hálendinu en ekki reyna við troðninga í þeirri færð sem nú er.

„Við leggjum líka áherslu á það að menn plani ferðina áður en þeir leggja af stað, láti einhvern vita af planinu, haldi sig við það eða tryggi að þeir geti látið vita ef breytingar verða á planinu," segir Bjarni. Með þessu sé hægt að spara tíma og jafnvel bjarga mannslífum ef kalla þarf út leitarlið.

Þá leggur Bjarni mikla áherslu á að menn hiki ekki við að kalla eftir hjáp ef þeir telji sig í hættu. Þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að verða nafngreindir þótt þeir þurfi á aðstoð að halda.

Í samstarfi við Menntaskólann á Laugarvatni

Björgunarsveitin Ingunn á Laugarvatni er ekki stór þótt skráðir félagar séu á bilinu 50-60. Á bilinu 8-10 manns eru í harðkjarnaliði sveitarinnar sem farið hefur í útköll um helgina í samstarfi við björgunarsveitir í nágrenninu, eins og Björgunarsveitina Biskup. „Þetta hefur gengið ótrúlega vel," segir Bjarni um björgunarstörf helgarinnar.

Björgunarsveitin nýtur nokkurrar sérstöðu á landsvísu því hún er samkvæmt Bjarna sú fyrsta sem tekið hefur upp samstarf við menntaskóla um þjálfun björgunarsveitarmanna. „Nemendur fá námskeið sem þeir taka í björgunarskóla Landsbjargar metin til eininga í skólanum. Þetta er mjög merkilegt samstarf sem við erum enn að þróa," segir Bjarni. Þarna fái sveitin fullgilda björgunarsveitarmenn.

„Við höfum notið góðs af þeirra liðsafla um helgina og það er gott samstarf á milli skólastjórnenda og björgunarsveitarinnar. Nemendur sem hafa farið í útkall hafa fengið frí í skólanum án þess að komi niður á mætingaskrá þeirra," segir Bjarni.

Aðspurður segir hann tekjuöflun sveitarinnar ekki auðvelda þar sem sveitarfélagið sé lítið. Þess vegna fari töluverður tími að afla fjár fyrir reksturinn. Hann hvetur fólk til að kaupa Neyðarkallinn sem björgunarsveitirnar selja þessi dægrin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×