Innlent

Lendingargjöld hafa lítil áhrif á umferð einkaþotna

Gísli Reynisson, forstjóri Nordic Partners.
Gísli Reynisson, forstjóri Nordic Partners. MYND/365

Hækkun lendingargjalda á Reykjavíkurflugvelli mun ekki draga úr umferð einkaþotna um flugvöllinn að mati Gísla Reynissonar, forstjóra Nordic Partners. Félagið á meðal annars Icejet sem rekur fimm einkaþotur. Gísli segir þörf á öðrum aðgerðum ef draga á úr lendingum á vellinum.

„Þeir sem nota einkaþotur eru fyrst og fremst að hugsa um að komast hratt og þægilega á milli staða," sagði Gísli Reynisson, forstjóri Nordic Partners, í samtali við Vísi. „Þetta eru háttsettir menn hjá stórum fyrirtækjum og þeir eru tilbúnir að greiða mikið fyrir þessi þægindi. Því munu lendingargjöld ekki skipta miklu máli í því samhengi."

Fram kom í máli Kristjáns L. Möller, samgönguráðherra, á fyrirspurnartíma á Alþingi í dag að hann hafi í hyggju að hækka lendingargjöld á Reykjavíkurflugvelli, meðal annars til þess að draga úr lendingum einkaþotna á vellinum. Fundaði hann nýlega með fulltrúum frá Flugstoðum vegna málsins.

Gísli segir lendingargjöld á Reykjavíkurflugvelli svipuð og á öðrum sambærilegum flugvöllum á meginlandi Evrópu. „Ef menn vilja draga úr umferð um flugvöllinn þyrfti frekar að færa allt kennslu- og ferjuflug á annan stað."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×