Innlent

Segir grundvallarmannréttindi ekki hafa verið brotin

Helga Arnardóttir skrifar
Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli.
Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafnar því alfarið að grundvallarmannréttindi Vítisenglanna sem vísað var úr landi í dag hafi verið brotin. Vítisenglar stundi glæpastarfsemi um allan heim sem beri að vernda almenning fyrir.

Vítisenglarnir átta sem lögregla stöðvaði í Leifsstöð í gær voru fluttir til Oslóar nú í morgunsárið. Búist var við að fleiri Vítisenglar væru væntanlegir til landsins í dag vegna afmælis vélhjólaklúbbsins Fáfnis í kvöld en þeir skiluðu sér ekki. Sama eftirlit hefur verið á Keflavíkurflugvelli í dag líkt og í gær.

Heimilt er að vísa EES- eða EFTA útlendingi úr landi ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu og almannaöryggis.

Jóhann R. Benediktsson lögreglustjóri á Suðurnesjum segir að ekki sé búist við fleiri Vítisenglum úr þessu en eftirlit verði áfram fram eftir kvöld.

Oddgeir Einarsson lögmaður tveggja vítisengla gagnrýndi aðferðir lögregluyfirvalda í hádegisfréttum Stöðvar tvö í dag og sagði grundvallarmannréttindi vítisengla hafa verið brotin og rökin fyrir brottrekstri verið veik.

Oddgeir sagði í samtali við Vísi í dag að Vítisenglar íhugi að höfða mál á hendur ríkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×