Innlent

Deilt um starfsemi REI á Filippseyjum

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur gagnrýna meirihluta stjórnarinnar fyrir skamman fyrirvara sem stjórnarmönnum var gefin til að taka afstöðu til áframhaldandi stuðnings Orkuveitunnar við útrásarverkefni Reykjavik Energy Invest á Filipseyjum.

Í dag samþykkti stjórn Orkuveitunnar að styðja áfram við þátttöku Reykjavik Energy Invest í einkavæðingu filippseyska orkufyrirtækisins PNOC-EDC, sem nú stendur yfir. Í tilkynningu frá Bryndísi Hlöðversdóttir, stjórnarformanni Orkuveitunnar, segir að með ákvörðuninni sé verið að standa vörð um hagsmuni almennings þar sem þegar hafi talsverðum fjármunum verið varið í verkefnið og verulegir hagsmunir séu í húfi. Þá þurfi að standa vörð um trúverðugleika REI.

Stjórn Orkuveitunnar var kynnt þessi fyrirætlan á fundi hennar í gær og óskað eftir því að málið yrði afgreitt þá. Sjálfstæðismenn óskuðu hins vegar eftir fresti fram til næsta reglulega fundar, en meirihlutinn hafnaði því að boðaði til aukafundar í dag til að afgreiða málið.

Sjálfstæðismenn sátu hjá við atkvæðagreiðslu og bókuðu óánægju sína með þessi vinnubrögð, þá sérstaklega í ljósi fyrri gagnrýni á fljótfærnisleg vinnubrögð í málefnum Reykjavík Energy Invest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×