Innlent

Áfram eftirlit vegna Vítisengla

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Úr Leifsstöð.
Úr Leifsstöð.

Aðgerð lögregluyfirvalda vegna komu norrænna félaga í Vítisenglum hingað til lands er ekki lokið. Fylgst verður með komuflugi til landsins um helgina og samkvæmi sem vélhjólaklúbburinn Fafner-MC Iceland hafði boðað til í Reykjavík.

Átta norrænum félögum í Vítisenglum var synjað um leyfi til landgöngu við komu sína til Keflavíkur í gær. Mennirnir héldu úr landi í morgun í fylgd 16 lögregluþjóna. Þeir fóru allir til Ósló. Með í för var eiginkona eins mannsins. Önnur kona sem var í för með eiginmanni sínum dvelst enn hér á landi.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að mönnunum hafi verið synjað um landgöngu á grundvelli útlendingalaga. Í 43. grein þeirra segir að heimilt sé að vísa fólki úr landi sé það nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu og almannaöryggis. Hafi menn verið dæmdir til refsingar eða sérstakar ráðstafanir ákvarðaðar má vísa þeim brott ef grunur leikur á að þeir muni fremja refsivert brot á ný.

Embætti ríkislögreglustjóra hefur yfirstjórn aðgerðarinnar, sem er viðamikil. Framkvæmd aðgerðarinnar til þessa hefur verið í höndum lögreglunnar á Suðurnesjum auk þess sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og starfsmenn frá embætti ríkislögreglustjórans taka einnig þátt í henni, segir í tilkynningu frá lögreglunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×