Kaupás, sem meðal annars rekur Krónuna, mótmælir harðlega þeim ásökum um ólöglegt samráð og segir vegið að orðspori og óendanlega mikilvægu trúnaðartrausti verslunarinnar og viðskiptavina hennar.
Skorar félagið á þar til bæra opinbera aðila að kanna tafarlaust og með öllum tiltækum ráðum sannleiksgildi þeirra nafnlausu og órökstuddu ásakana sem komið hafi fram í fjölmiðlum að undanförnu. Jafnframt vonast Kaupás til að Samkeppniseftirlitið hraði eins og frekast er unnt þeirri athugun sem þegar er hafin á stöðu matvælamarkaðarins.
Þá mótmælir Kaupás því að óeðlileg vinnubrögð séu viðhöfð í tengslum við verðkannanir. Félaginu sé það mikið kappsmál að vandaðar verðkannanir gefi neytendum glögga mynd af því hverjir bjóða best í þeirri miklu samkeppni sem ríkir á íslenskum matvælamarkaði.
„Kaupás fagnar öllum vel unnum verðkönnunum og lítur á þær sem dýrmætt vopn í því verkefni sínu að veita markaðsráðandi aðila nauðsynlegt aðhald í verðlagningu og þjónustu. Í þeim efnum er þáttur Krónunnar sérstaklega mikilvægur og trúverðugleika verslunarinnar yrði aldrei fórnað með vinnubrögðum af því tagi sem dylgjað er um," segir í tilkynningu Kaupáss.
Þar segir enn fremur að mikill fjöldi verðbreytinga á degi hverjum sé til marks um virka samkeppni en ekki samráð.