Innlent

Leggja þarf aukna áherslu á öryggisþáttinn á Litla-Hrauni

Í nýrri skýrslu nefndar sem falið var að gera tillögur um framtíðarrekstur fangelsisins að Litla-Hrauni kemur fram að nauðsynlegt sé að endurskipuleggja stjórnskipulag fangelsisins. Þá vill nefndin að lögð verði aukin áhersla á öryggisþáttinn í starfsemi fangelsisins, móta þurfi skýra starfsmannastefnu og markvissa endurhæfingu þeirra fanga sem vistaðir eru á Litla-Hrauni. „Þá telur nefndin mikilvægt að kvenfangar eigi möguleika á því að afplána refsivist í sérstöku kvennafangelsi," segir í fréttatilkynningu.

Nefndin skilaði áfangaskýrslu til dómsmálaráðherra og forstjóra Fangelsismálastofnunar í apríl þar sem lögð var áhersla á að gerðar yrðu breytingar á frumteikningum að fyrirhuguðu móttökuhúsi á Litla-Hrauni. „Nefndin fagnar því að í fyrirliggjandi teikningum nú er að fullu tekið tillit til tillagna nefndarinnar."

Margrét Frímannsdóttir, fyrrverandi alþingismaður, stýrði störfum nefndarinnar sem sett var á laggirnar að tillögu Valtýs Sigurðssonar, forstjóra Fangelsismálastofnunar ríkisins. Í nefndinni áttu sæti auk Margrétar Frímannsdóttur, Margrét Sæmundsdóttir, verkefnisstjóri hjá Fangelsismálastofnun, Sigurjón Birgisson, formaður Fangavarðafélags Íslands, og Anna Sigríður Arnardóttir, þá starfandi lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Í júlí 2007 tók Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögfræðingur í ráðuneytinu, sæti Önnu Sigríðar. Starfsmaður nefndarinnar var Marta Margrét Ö. Rúnarsdóttir laganemi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×