Innlent

Lagt til að Alþingi skipi hæstaréttardómara

MYND/Hari

Alþingi mun framvegis þurfa að samþykkja skipan hæstaréttardómara fari svo að frumvarp Lúðvíks Bergvinssonar og þriggja annarra þingmanna verði samþykkt á Alþingi. Með því á að koma í veg fyrir að skipað sé í embættið út frá pólitískum forsendum.

Samkvæmt frumvarpinu þarf tvo þriðju hluta atkvæða á Alþingi til að skipan hæstaréttardómara telst samþykkt. Synji Alþingi hins vegar staðfestingar á tillögu forsætisráðherra þarf hann að leggja fram aðra tillögu sem fær sömu meðferð.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að það fyrirkomulag sem tíðkast hefur hér á landi við skipan hæstaréttardómara hafi gefið þeirri umræðu byr undir báða vængi að skipað sé í réttinn pólitískt. Þá segir ennfremur að það sé mat flutningsmanna að með þessari breytingu muni sjálfstæði dómstóla aukast sem og trú manna á lýðræði og stjórnskipan landsins.

Ásamt Lúðvíki standa þeir Jón Magnússon, Gunnar Svavarsson og Helgi Hjörvar að frumvarpinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×