Innlent

Ísland of lítið fyrir gjafasæðisbanka

MYND/Hari
Þórður Óskarsson, læknir og sérfræðingur hjá Art Medica, segir íslenskt samfélag of lítið til þess að það borgi sig að koma á fót gjafasæðisbanka líkt og tíðkast í útlöndum. Auk þess yrði með slíku hætta á of miklum skyldleika milli gjafa og þega. Hann segir hins vegar að ekkert standi í vegi fyrir því að íslenskir karlar gefi sæði til tæknifrjóvgana hér á landi.

Haft var eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur, varaformanni Samtakanna 78, á Vísi í gærkvöld að heppilegt væri ef íslenskur sæðisbanki tæki til starfa, meðal annars út frá mannúðarsjónarmiðum. Það gjafasæði sem notað er í tæknifrjógvanir hér er mestmegnis fengið frá Danmörku en þar er haldið algjörri nafnleynd gagnvart sæðisgjafanum.

Íslenskir sæðisgjafar ekki bannaðir

Þórður Óskarsson, læknir og sérfræðingur hjá Art Medica, sem séð hefur um tæknifrjóvganir hér á landi, segir ekkert banna það að íslenskir karlmenn gefi sæði, til að mynda ef það kemur fram beiðni um sæði frá sérstökum gjafa. Slíkar beiðnir hafi verið lagðar fram hér á landi. „Í slíkum tilvikum er kannað hvort gjafinn sé með tiltekna sjúkdóma, þar á meðal alnæmi og lifrarbólgu, og svo er sæðið geymt í hálft ár. Þá er það rannsakað aftur til þess að fá fullvissu fyrir því að sæðið sé ekki sýkt," segir Þórður og bendir á að þetta sé einnig gert í sæðisbönkum erlendis.

Aðspurður hvort hægt væri að koma á fót gjafasæðisbanka á Íslandi segir Þórður að samfélagið sé of lítið. Það sé praktískara að kaupa sæði að utan. Þá bendir Þórður enn fremur á að Íslendingar séu svo fáir að ef það ætti að koma á fót banka með nafnlausum gjöfum ykjust líkur á skyldleika milli gjafa og þega.

Einhleypar konur mega ekki fara í tæknifrjógvun

„Við höfum keypt sýni frá dönskum gjöfum sem eru útlitslega svipaðir íslenskum körlum," segir Þórður aðspurður og hann bendir á að konur geti pantað sæðisgjafa úr þar til gerðum listum. „Þannig er til dæmis hægt að velja á milli sæðis frá ljóshærðum og bláeygum tónlistarmanni og frá dökkhærðum og brúneygðum lækni," segir Þórður.

Þórður bendir enn fremur á galla í íslenskri löggjöf sem meinar einhleypum konum að fara í meðferð til þess að verða ófrískar. Samkvæmt lögum þurfi þær að vera í sambúð með konu eða karli. Hins vegar megi konur ættleiða börn. „Það er mikil mótsögn í þessu en það stendur vonandi til að breyta þessu. Það er búið að skipa nefnd til að fara yfir þessi mál og í henni er meðal annars fulltrúi frá okkur," segir Þórður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×