Innlent

Tálbeitur á barnaníðinga

Formaður allsherjarnefndar Alþingis telur að það kunni að vera réttlætanlegt að lögreglan noti sérstakar tálbeitur til að ná til meintra barnaníðinga. Þrír karlmenn sem gengu í gildru sjónvarpsþáttarins Kompáss voru í morgun sýknaðir af ákærum um tilraun til kynferðisbrota.

Í fréttaskýringarþættinum Kompás síðasta vor var sýnt frá því þegar fimm karlmenn fóru á heimili ólögráða stúlku að því er virtist í kynferðislegum tilgangi. Mennirnir komust í kynni við stúlkuna á netinu. Þeir héldu að um væri að ræða þrettán ára stúlku en í raun var stúlkan 28 ára kona sem var tálbeita Kompáss. Þáttagerðamenn afhentu lögreglu öll gögn úr þættinum sem ákvað að ákæra þrjá þeirra sem mættu í íbúð stúlkunnar.

Í morgun sýknaði svo Héraðsdómur Reykjavíkur þremenningana. Dómurinn taldi ekki heimilt að nota tálbeitu til að kalla fram refsiverða háttsemi eins og gert var og jafnframt að vafi léki á því hvort að heimilt hafi verið að byggja rannsóknina á gögnum Kompás.

Birgir Ármannsson, formaður allsherjarnefndar Alþingis, segir að fara verði vel yfir þær reglur sem gilda um rannsóknir slíkra mála. Hann telur að það kunni að vera réttlætanlegt að lögreglan hafi leyfi til að nota tálbeitur sem setja sig í samband við meinta kynferðisbrotamenn á netinu. Fara þurfi vandlega yfir málið en mikilvægt sé að tryggja að lögreglan hafi þau úrræði sem duga til að koma í veg fyrir afbrot þar sem það er hægt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×