Innlent

Atlantsolía í skaðabótamál við Olís

Þarna stóð bíllinn áður en hann var fjarlægður á föstudaginn. Olíufélögin ekki sammála um hver hafi yfirráðarrétt yfir svæðinu.
Þarna stóð bíllinn áður en hann var fjarlægður á föstudaginn. Olíufélögin ekki sammála um hver hafi yfirráðarrétt yfir svæðinu.

Atlantsolía sakar Olís um að hafa með ólögmætum hætti látið fjarlægja auglýsingabifreið félagsins af bílaplani við Skúlagötuna. Bíllinn var fluttur upp í höfuðstöðvar Vöku þar sem lögmaður Atlantsolíu leysti hann út í dag. Félagið hyggst fara í skaðabótamál við Olís vegna málsins.

„Það er alveg klárt að við munum óska eftir skaðabótum vegna þessa máls," sagði Albert Þór Magnússon, framkvæmdastjóri Atlantsolíu, í samtali við Vísi. „Olís gekk of langt."

Starfsmenn Olís óskuðu á föstudaginn eftir aðstoð Vöku við að láta fjarlægja auglýsingabifreið sem Atlantsolía hafði komið fyrir á bílastæði við Skúlagötu. Stæðið liggur við hliðiná bensístöð Olís. Bíllinn var fluttur á geymslusvæði Vöku þar sem hann var yfir helgina.

Olísmenn líta svo á að stæðið sé þeirra eign og því hafi þeir verið í fullum rétti að láta fjarlægja bifreiðinar. Þetta vill Atlantsolía ekki sætta sig við.

Benda þeir á að Olís hafi fengið úthlutað lóðaskika árið 2001 þar sem bílastæðið stendur nú. Hins vegar hafi þessu aldrei verið þinglýst og því getur stæðið ekki talist eign Olís. Þá segja þeir ennfremur að auglýsingabílnum hafi verið lagt að minnst kosti 20 metrum fyrir utan úthlutuðum lóðaskika Olís.

Framkvæmdastjóri Atlantsolíu fór í höfuðstöðvar Vöku á laugardaginn og krafðist þess að fá bílinn leystan út endurgjaldslaust. Þeirri beiðni var neitað af hálfu Vöku. Lögfræðingur Atlantsolíu leysti hins vegar bílinn út í dag með þeim fyrirvara að félagið áskildi sér þann rétt að krefjast seinna greiðslu frá Olís eða Vöku vegna málsins.

Atlantsolíumenn ætla að koma bílnum aftur fyrir á bílaplaninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×