Innlent

Varar við gengdarlausum viðskiptahalla

Steingrímur J. Sigfússon, alþingismaður.
Steingrímur J. Sigfússon, alþingismaður. MYND/PS

Hagstjórnin er í molum og allar hagspár ómarktækar að mati Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri grænna. Þetta kom fram í máli hans í utandagskráumræðu um horfur í efnhagsmálum og hagstjórn á Alþingi í dag. Hann varar við gengdarlausum viðskiptahalla. Staða þjóðarbúsins aldrei verið betri segir forsætisráðherra.

Í máli Steingríms kom fram að á síðustu tólf árum hafi aðeins einu sinni náðst jákvæður viðskiptajöfnuður við útlönd. Ástandið fari versnandi og sé mun verra en fyrri spár gerðu ráð fyrir. „Þessi geigvænlega skuldasöfnun æðir áfram og hleðst upp," sagði Steingrímur og benti ennfremur á að nú sé Ísland á botninum meðal skuldugustu þjóða heims á borð við Líbanon, Tógó og Laós. „Þessi halli er ávísun á svimandi háa vexti, verðbólgu og erlenda skuldasöfnun."

Kenndi Steingrímur slæmri hagstjórn núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar um þróun mála. Varaði hann við auknum framkvæmdum á vegum hins opinbera sem geri ástandið enn verra að hans mati.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagðist í ræðu sinni ekki vilja gera lítið úr því að viðskipthallinn væri vandamál en benti jafnframt á að hann hafi farið minnkandi að undanförnu. Þá sagði hann það heyra til undantekninga á Íslandi að viðskiptajöfnuður við útlönd væri jákvæður. Ennfremur sagði Geir að fyrirtækin í landinu stæðu að baki hallanum en staða ríkissjóðs væri hins vegar sterk. Ríkissjóður hafi borgað innlendar og erlendar skuldir og notað sitt svigrúm til að efla Seðlabankannn. „Ég tel að aukinn stöðugleiki sé framundan sem meðal annars birtist í því að viðskiptahallinn fer minnkandi. En það mun taka nokkur ár koma honum í fullt jafnvægi," sagði Geir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×