Innlent

Óskað eftir að selja og kaupa ýmsar eignir

Hverasvæði Geysis er meðal jarða sem ríkið hefur augastað á.
Hverasvæði Geysis er meðal jarða sem ríkið hefur augastað á. MYND/Vilhelm

Stóðhestastöðin í Gunnarsholti og húsakynni Fangelsismálastofnunar og Vegagerðarinnar í Borgartúni eru meðal eigna ríkisins sem óskað er eftir heimild til að selja í nýju fjárlagafrumvarpi. Þá er óskað eftir heimild til að selja hluta af landsvæðum ríkisins við Litla-Hraun og ráðstafa andvirðinu til endurbóta á fangelsinu.

Í fjárlögum hvers árs er að finna yfirlit yfir bæði húsnæði, eignarhluta í húsnæði og lóðir og jarðir sem óskað er eftir heimild til að selja. Þetta er gert í samræmi við reglugerð sem kveður á um að ekki megi selja slíkar eignir án samþykkis Alþingis.

Venjulega eru það þau ráðuneyti sem viðkomandi eign fellur undir sem senda fjármálaráðuneytinu erindi um að fá að selja tiltekna eign en slíkar heimildir eru ekki alltaf notaðar. Þannig geta heimildir til sölu á tilteknu húsnæði eða jörð verið í fjárlögum ár eftir ár án þess að þær séu nýttar.

Þannig var til að mynda heimild í fjárlögum 2007 til að selja fasteignina að Laugarnesvegi 91, þar sem Listaháskólinn hefur haft aðstöðu, og semja við Listaháskólann um aðra hentuga lausn í húsnæðismálum. Slíka heimild er líka að finna í fjárlögum fyrir næsta ár enda ekki búið að finna háskólanum nýtt húsnæði.

Auk þess er í nýju fjárlagafrumvarpi nú að finna heimild til að selja sendiherrabústaðinn í Kaupmannahöfn og kaupa eða leigja annan hentugri og þá er einnig heimild til að selja stóðhestastöðina í Gunnarsholti ásamt landspildum við stöðina og ráðstafa andvirðinu til Hekluskóga og uppbyggingar á landsmótssvæðinu við Gaddastaðaflatir.

Þá er enn fremur að finna heimild til að selja fasteignir ríkisins við Borgartún 5 og 7 og kaupa eða leigja annað hentugra húsnæði. Þar eru Fangelsismálastofnun, Vegagerðin, Ríkiskaup og Skattrannsóknarstjóri nú til húsa.

Óskað eftir heimild til að selja hluta af landsvæðum við Litla-Hraun

Af lóðum og jörðum sem óskað er eftir heimild til að selja í fjárlögum 2008 má nefnda jörðina Þjótanda en hún komst í fréttirnar í sumar þegar í ljós kom að fyrrverandi landbúnaðarráðherra hefði skuldbundið sig til að ræða við Landsvirkjun um að hún fengi jörðina í þágu fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda í neðri hluta Þjórsár.

Þá er í fjárlagafrumvarpinu óskað eftir heimild til að selja hluta að selja fasteignir í Flatey á Skjálfanda og hluta af jörðunum Selárdal og Uppsölum í Vesturbyggð sem eru í eigu í ríkisins. Þá er leitað eftir heimild til þess að selja hluta af landsvæðum ríkisins við Litla-Hraun og ráðstafa andvirðinu til endurbóta á fangelsinu.

Það er jafnan í höndum Ríkiskaupa að bjóða eignir ríkisins til sölu með opinberri auglýsingu.

Vilja kaupa hverasvæði Geysis

Í nýju fjárlagafrumvarpi er einnig að finna heimildir til kaupa eða leigu á fasteignum. Í þeim tilvikum þarf því einnig að leita heimildar Alþingis. Meðal heimilda sem finna má í frumvarpinu er heimild til að kaupa hverasvæði Geysis í Haukadal, að kaupa jarðir innan fyrirhugaðs Vatnajökulsþjóðgarðs og að kaupa 25 íbúðir vegna átaks í málefnum fatlaðra. Þá síðastnefndu var einnig að finna í fjárlagafrumvarpi síðasta árs. Þá er enn fremur óskað eftir heimild til þess að kaupa viðbótarhúsnæði fyrir starfsemi Þjóðleikhússins.

 

Óskað er efti heimild til að selja stóðhestastöðina í Gunnarsholti ásamt landspildum við stöðina og ráðstafa andvirðinu til Hekluskóga og uppbyggingar á landsmótssvæðinu við Gaddastaðaflatir.
Enn fremur er að finna heimild í fjárlögum til að selja fasteignir ríkisins við Borgartún 5 og 7 og kaupa eða leigja annað hentugra húsnæði. Þar eru Fangelsismálastofnun, Vegagerðin, Ríkiskaup og Skattrannsóknarstjóri nú til húsa. MYND/Hörður Sveinsson
Heimild var í fjárlögum 2007 til að selja fasteignina að Laugarnesvegi 91, þar sem Listaháskólinn hefur haft aðstöðu, og semja við Listaháskólann um aðra hentuga lausn í húsnæðismálum. Slíka heimild er líka að finna í fjárlögum fyrir næsta ár.MYND/Vilehlm
Leitað er eftir heimild til þess að selja hluta af landsvæðum ríkisins við Litla-Hraun og ráðstafa andvirðinu til endurbóta á fangelsinu. MYND/Heiða
Óskað eftir heimild til að selja fasteignir í Flatey á Skjálfanda í eigu ríkisins.
Meðal heimilda sem finna má í fjárlagafrumvarpinu er heimild til að kaupa hverasvæði Geysis í Haukadal.MYND/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×