Innlent

Breytir ekki skilyrðum vegna samruna á sviði fraktflutninga

Samkeppniseftirlitið telur ekki forsendur fyrir því að fella niður skilyrði sem sett voru fyrir samruna Icelandair, Bláfugls og Flugflutninga árið 2005. Þetta kemur fram á vef Samkeppniseftirlitsins. Þá rannsakar eftirlitið hvort félögin hafi brotið gegn skilyrðium ákvörðunarinnar.

Eftirlitið setti félögunum skilyrði fyrir samruna til þess að tryggja viðskiptalegt sjálfstæði Bláfugls og Flugflutning og að þau gætu veitt Icelandair Cargo fulla samkeppni á svið fragtflutninga. Var kveðið á um í úrskurðinum 2005 að skilyrðin skyldu endurskoðuð að tveimur árum liðnum með tilliti til breyttra aðstæðna á fraktflutningamarkaði.

Samkeppniseftirlitið hóf skoðunina í vor og hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að styrkur Flugleiða-Fraktar og Bláfugls hafi aukist enn frekar frá því sem hann var á þeim tíma þegar samruni fyrirtækjanna var samþykktur og beri vott um algjöra yfirburðastöðu á markaðnum. Fyrirhuguð innkoma Air Atlanta á markaðinn hafi ekki gengið eftir en það hafi verið ein grunnforsenda þess að umræddur samruni var heimilaður.

Taldi Samkeppniseftirlitið því ekki forsendur fyrir því að fella niður skilyrðin sem komu fram í ákvörðun samkeppnisráðs árið 2005. Í ákvörðun eftirlitsins nú segir jafnframt að við rannsókn málsins hafi komið fram vísbendingar um að hugsanlega hafi verið brotið gegn skilyrðum ákvörðunarinnar frá 2005. Tekið verði til skoðunar hvort grunur um framangreint sé á rökum reistur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×