Innlent

Íslensk stjórnvöld fordæma ofbeldisverk í Búrma

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vakti athygli á ástandinu í Búrma í ræðu sinni hjá SÞ í síðustu viku.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vakti athygli á ástandinu í Búrma í ræðu sinni hjá SÞ í síðustu viku. MYND/Pjetur

Íslensk stjónvöld fordæma þau ofbeldisverk sem unnin hafa verið í Asíuríkinu Búrma á síðustu vikum til þess að bæla niður friðsamleg mótmæli í landinu. Eru stjórnvöld í landinu hvött til að virða grundvallarmannréttindi og aflétta hömlum á friðsamlegri pólitískri starfsemi.

Fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu að mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hafi fundað sérstaklega í Genf í dag vegna ástands mannréttindamála í Búrma en þar er talið að hundruð hafi látist í árásum stjórnarhersins á friðsama mótmælendur.

Fastafulltrúi Íslands hjá alþjóðastofnunum í Genf flutti yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda í málinu en þau fordæma sem fyrr segir barsmíðar, morð og óréttmætar fangelsanir í Búrma. Er þess krafist að stjórnvöld í Búrma leysi úr haldi án tafar þá einstaklinga sem teknir hafa verið til fanga, þar með talda Aung San Suu Kyi, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Búrma, sem setið hefur í stofufangelsi í mörg ár.

Þá hefur Evrópusambandið lagt fram ályktanatillögu í ráðinu sem Ísland styður og kemur til afgreiðslu fundarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×