Innlent

Dagur barnsins haldinn hátíðlegur ár hvert

MYND/Pjetur

Stefnt er að því að halda Dag barnsins hátíðlegan í fyrsta sinn á Íslandi á næsta ári. Þetta er liður í auknum áherslum ríkisstjórnarinnar á málefni yngstu kynslóðarinnar.

Það var Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra sem kynnti hugmyndina á ríkisstjórnarfundi í morgun og var henni falið að stýra undirbúningi að því að festa daginn í sessi, meðal annars með því að tryggja honum stöðu í Almanaki Háskóla Íslands.

Jóhanna sagði í samtali við Vísi að hugmyndin um Dag barnsins væri liður í áætlunum nýrrar ríkisstjórnar um að styrkja stöðu barna og fjölskyldna í landinu. Dagur barnsins hefði verið haldinn 1. júní árlega í fjölmörgum lönum og á honum væri meðal annars lögð áhersla á mikilvægi þess að foreldrar verðu tíma með börnum sínum.

Jóhanna segir að stefnt sé að því að halda daginn hátíðlegan hér á landi síðasta sunnudag í maí ár hvert og ætlunin sé að fagna honum í fyrsta sinn strax á næsta ári.

Starfshópi, sem skipaður var í tengslum við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í málefnum barna og unglinga í sumar, verður falið að gera tillögur að því hvernig deginum verður fagnað ár hvert og þá eru uppi hugmyndir að veita viðurkenningar til þeirra sem þykja hafa unnið öttullega að málefnum barna í samfélaginu. Jóhanna bætir enn fremur við að ýmislegt verði um að vera fyrir börnin á þessum hátíðisdegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×