Innlent

Vill fresta gildistöku vatnalaga um eitt ár

MYND/Valgarður

Gildistöku vatnalaganna verður frestað um eitt ár ef frumvarp Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra þar að lútandi nær fram að ganga.

Frumvarpið var kynnt í ríkisstjórn í morgun og kemur fram í tilkynningu frá iðnaðarráðuneytinu að ætlunin sé að veita nefnd, sem fulltrúar allra flokka eiga aðild að, færi á að skoða samræmi laganna við önnur lagaákvæði sem varða vatn og vatnsréttindi, þar á meðal frumvarp umhverfisráðherra til vatnsverndarlaga sem byggist á Evróputilskipun.

Töluverðar deilur stóðu um vatnalögin þegar þau voru samþykkt í fyrra en ákveðið var að skipa fyrrnefnda nefnd í framhaldinu. Össur Skarphéðinsson lýsti því svo yfir í sumar að hann vildi endurskoða vatnalögin, meðal annars með tillit til eignarréttar á vatnsréttindum. Benti hann á í haust að umrædd nefnd hefði aldrei verið skipuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×