Innlent

Óumflýjanlegt að taka kvótakerfið til endurskoðunar

Vinstri - græn segja að kvótakerfið hafi brugðist og óumflýjanlegt sé að taka það til endurskoðunar. Þá segir flokkurinn mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar fálmkenndar og koma þeim sem verði fyrir áfalli vegna niðurskurðar á þorskkvóta að litlu eða engu gagni.

Þingflokkur Vinstri - grænna hyggst beita sér fyrir því að Alþingi taki á þessum málum á fyrstu starfsdögunum eftir því sem segir á heimasíðu Vg. Þingflokkurinn hyggst einnig leggja áherslu á við upphaf þings að gerð verði ítarleg rannsókn á því hvaða áhrif markaðsvæðing almannaþjónustu hafi og þá vill flokkurinn að hin umdeildu vatnalög, sem taka eiga gildi 1. nóvember, verði felld úr gildi.

Vinstri - græn vilja enn fremur að hjúskaparlögum verði breytt þannig að þau gildi jafnt um öll pör, samkynhneigð sem gagnkynhneigð. Þá vill flokkurinn bæta stöðu almenningssamgangna með því að fella niður virðisaukaskatt og endurgreiðslu olíugjalds fyrir slíkar samgöngur. Jafnframt þurfi að stórefla íslenskukennslu fyrir innflytjendur með markvissri aðgerðaáætlun í stað tímabundinna reddinga.

Enn fremur vilja Vinstri - græn að orkuverð og samningskilmálar vegna orkusölu í landinu verði opinberir og að fallið verði endanlega frá áformum um Norðlingaölduveitu og frekari virkjanir í Þjórsá. Þá hyggjast Vinstri - græn leggja fram þingsályktunartillögur um að um friðlýsingu Austari- og Vestari-Jökulsár í Skagafirði og lagafrumvarp sem kveður á um að tannlækningar verði gjaldfrjálsar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×