Innlent

Lög um Seðlabanka Íslands verði endurskoðuð

Hávaxtastefna Seðlabankans veldur sveiflum á gengi krónunnar og virkar ekki sem hagstjórnartæki, að mati forystumanna í fiskvinnslu. Nauðsynlegt sé að endurskoða lög um Seðlabankann. Um 14 % starfsmanna í fiskvinnslu missa vinnuna á næstu misserum vegna kvótaskerðingar.



Eins og kunnugt er var hátt í hundrað manns í fiskvinnslu sagt upp störfum í gær hjá fyrirtækjunum Eskju á Eskifirði og Humarvinnslunni í Þorlákshöfn. Bæði fyrirtækin segja að uppsagnirnar megi rekja til skerðingar þorskkvótans. Arnar Sigurmundsson formaður Samtaka fiskvinnslustöðva segir að enn fleiri uppsagnir séu framundan.

Samtökin hafi spáð því að hátt í 600 manns í fiskvinnslu myndu missa vinnuna á næstu mánuðum. Um 4500 manns starfa í fiskvinnslu um allt land og það þýðir að um 14 % þeirra missa vinnuna gangi spáin eftir. En það er fleira sem veldur samtökum fiskvinnslustöðva áhyggjum og það er hávaxtastefna Seðlabanka Íslands.

Aðalfundur samtaka fiskvinnslustöðva sem haldinn var í dag samþykkti ályktun þess efnis að lög um Seðlabankann yrðu endurskoðuð. Arnar segir háa stýrivexti valda sveiflum á gengi krónunnar. Arnar segir samtökin ekki telja að upptaka evrunnar leysi hagstjórnarvandann.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra tók í sama streng á aðalfundinum í dag.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×