Innlent

Játuðu innbrot í einbýlishús í Garðabæ

MYND/Stöð 2

Fjórir karlmenn á tvítugsaldri hafa játað hafa brotist inn á heimili við Bæjargil í Garðabæ og hreiðrað þar um sig á meðan húsráðendur voru í útlöndum. Eftir því sem segir í tilkynningu frá lögreglunni þekkti einni aðilanna til íbúanna í húsinu og vissi því að þeir voru á leið til útlanda.

Mennirnir stálu miklum verðmætum, þar á meðal tölvum, flatskjám og fermingargjöfum dóttur húsráðenda en lögregla segir að hluti af þýfinu hafi verið endurheimtur.

Greint var frá því í fréttum á þriðjudag að húsráðendur hefðu komið að einbýlishúsi sínu nánast í rúst eftir að piltarnir höfðu dvalið þar. Búið var að rútta til húsgögnum, sofa í rúmum, sígarettustubbar og tól til fíkniefnaneyslu lágu út um allt og búið var að stela miklum verðmætum sem fyrr segir. Fjölskyldan var svo slegin við heimkomuna frá útlöndum að hún treysti sér ekki til að sofa í húsinu fyrstu nóttina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×