Lífið

Kvöldsögur með Önnu Kristine

Anna Kristine átti 30 ára starfsafmæli í fjölmiðlum 1. mars síðastliðinn
Anna Kristine átti 30 ára starfsafmæli í fjölmiðlum 1. mars síðastliðinn MYND/GVA

Fjölmiðlakonan Anna Kristine Magnúsdóttir fer af stað með nýjan þátt á Bylgjunni fimmtudagskvöldið næstkomandi. Hugmyndin er að endurvekja Kvöldsögurnar sem voru vinsælar á Bylgjunni fyrir allmörgum árum.

Anna Kristine stýrði lengi þættinum Milli mjalta og messu þar sem hún ræddi við fólk í beinni útsendingu og verða Kvöldsögurnar með svipuðu sniði. "Eina breytingin er sú að þá var ég morgunhani en nú mun ég breytast í kvöldhænu," segir Anna en þættinum verður útvarpað milli tíu og tólf á kvöldin.

Einungis einn viðmælandi verður í hverjum þætti og segir Anna Kristine ekki erfitt að halda samtalinu gangandi svo lengi. "Mér fannst klukkutímaviðtöl í Milli mjalta og messu of stutt. Hver einasta manneskja hefur frá svo miklu að segja og ég hugsa að næst biðji ég um þriggja tíma þátt," segir hún og hlær.

"Útvarpið er einstaklega einlægur miðill og hugsa ég að í þáttunum verði örlítið dulræn stemmning. Ég mun tala við fólk úr öllum stéttum þjóðfélagsins og fjalla um gleði, sorgir og sigra. Hlustendur munu svo geta haft samband og komið spurningum sínum á framfæri." Anna Kristine segist vonast til að fólk geti sameinast fyrir framan útvarpið með kakóbolla, svolítið eins og gert var á fimmtudagskvöldum í gamladaga þegar útvarpsleikritið var flutt á Rás 1.

Anna Kristine sem starfar sem blaðamaður á DV mun halda því áfram meðfram Kvöldsögunum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.