Innlent

Lúkasar minnst með kertavökum í kvöld

Talið er að fimm ungir menn hafi drepið hundinn Lúkas.
Talið er að fimm ungir menn hafi drepið hundinn Lúkas. MYND/Tekin af hundaspjall.is
Kertavaka til minningar um hund sem var drepinn með hrottalegum hætti á Akureyri á dögunum verður haldin í Reykjavík og Akureyri í kvöld. Miklar umræður hafa spunnist á Netinu vegna málsins en þar er því haldið fram að ungir drengir hafi sett hundinn ofan í íþróttatösku og sparkað töskunni á milli sín þar til hann var allur.

Fyrstu fréttir hermdu að verknaðurinn hefði hafa náðst á öryggismyndavél í bænum. Heimildir Vísis herma að svo hafi ekki verið en hins vegar hafi nokkur vitni að atburðinum þegar gefið sig fram við lögreglu. Eigandi hundsins hefur kært verknaðinn til lögreglu. Enn sem komið er hefur Lögreglan á Akureyri engar upplýsingar gefið um málið en hún staðfestir þó að málið sé í rannsókn.

Forsaga málsins er sú að hundurinn Lúkas, sem var af Chinese Crested kyni, slapp frá eiganda sínum á Akureyri þann 28. maí síðastliðinn. Eigendur leituðu hundsins án árangurs í marga daga en á Bíladögum á Akureyri helgina 15. til 17. júní sást til fimm ungra manna með hundinn. Ekki náðist í mennina en sagan segir að á laugardeginum hafi þeir sett hundinn ofan í íþróttatösku og sparkað í hann þar til hann var allur. Hræið af hundinum hefur enn ekki fundist.

Minningarvökur um hundinn Lúkas verða haldnar á Geirsnefi í Reykjavík, hjá Blómavali á Akureyri og í Sandvík á Vopnafirði klukkan átta í kvöld.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.