Innlent

Ólíklegt að Framsókn verði áfram í ríkisstjórn

MYND/GVA

Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra og oddviti framsóknarmanna í Reykjavíkurkjördæmi suður, telur ólíklegt að Framsóknarflokkurinn fari aftur í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum ef stjórnin heldur naumlega velli.

Jónína, sem virðist á leið út af þingi, samkvæmt nýjustu tölum, sagði á Stöð 2 fyrr í kvöld að flokkurinn hefði rætt um að fylgi hans þyrfti að vera sem næst fylginu í síðustu kosningum, um 17 prósentum, til þess að stjórnarsamstarfinu yrði haldið áfram. Hún hafi vonast eftir svipuðu fylgi og þá en skoðanakannanir hafi verið á þann veg að framsóknarmenn hafi verið undirbúnir undir slæmt gengi.

Aðspurð um hvers vegna flokknum gangi svona illa segir Jónína ekki auðvelt að útskýra það. Svo virðist sem flokkurinn sé blóraböggull fyrir eitthvað sem fólk sé óánægt með en það bitni ekki á Sjálfstæðisflokknum. Benti hún á að flokkurinn hefði misst fjóra þingmenn yfir til Vinstri grænna.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×