Innlent

Geir getur valið

Jónas Haraldsson skrifar
Sjálfstæðismenn fögnuðu Geir Haarde ákaft þegar hann mætti á kosningavöku þeirra á Broadway.
Sjálfstæðismenn fögnuðu Geir Haarde ákaft þegar hann mætti á kosningavöku þeirra á Broadway.

Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðingur, sagði í samtali við Vísi að Sjálfstæðisflokkurinn, miðað við núverandi tölur, standi með pálmann í höndunum og geti valið sér samstarfsflokk í ríkisstjórn ef Framsókn ætlar sér ekki að starfa áfram í ríkisstjórn.

„Það er spurning hvort Framsókn kæri sig um að halda áfram í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, þrátt fyrir að geta myndað með þeim meirihluta, þar sem flokkurinn virðist vera að koma illa út úr ríkisstjórnarsamstarfinu. Menn gætu metið það svo að það gæti riðið flokknum að fullu að halda samstarfinu áfram," sagði Einar.

„Þriggja flokka stjórn með einn mann í meirihluta er erfitt að halda saman. Líklegt er að Sjálfstæðisflokkurinn velji þá milli Samfylkingar og Vinstri grænna." sagði Einar ennfremur.

Það að Árni Mathiesen vildi ekki útiloka samstarf með Samfylkingunni í viðtali á Stöð tvö í kvöld gefur þeim orðróm byr undir báða vængi að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking hyggi á samstarf.

Guðmundur Magnússon sagði í kosningasjónvarpi Stöðvar tvö að Geir H. Haarde hefði sagt að það væru tveir flokkar sem væru sigurvegarar í þessum kosningum, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir.

Það virðist enn frekar renna stoðum undir þá kenningu að sjálfstæðismenn geti hugsað sér ríkisstjórnarsamstarf með vinstriflokkunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×