Enski boltinn

Benitez: Carragher á að vera í byrjunarliði Englendinga

Jamie Carragher stóð sig vel gegn Barcelona
Jamie Carragher stóð sig vel gegn Barcelona NordicPhotos/GettyImages

Rafa Benitez, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að frammistaða varnarmannsins Jamie Carragher í leikjunum gegn Barcelona í Meistaradeildinni hafi undirstrikað að hann eigi að vera fastamaður í vörn enska landsliðsins.

Carragher hefur leikið mjög vel með Liverpool undanfarin ár en hefur ekki hlotið náð fyrir augum ensku landsliðsþjálfaranna, sem jafnan eru með þá John Terry hjá Chelsea og Rio Ferdinand hjá Manchester United sem sinn fyrsta kost í miðju varnarinnar.

"Það kemur mér mjög á óvart að Jamie skuli ekki vera fastamaður í enska landsliðinu. Hann var frábær gegn Barcelona þar sem hann hélt aftur af Ronaldinho og þegar maður dekkar mann eins og hann - má maður alls ekki gera mistök. Jamie gerði engin mistök gegn Ronaldinho og er sjaldan betri en þegar hann er að kljást við bestu sóknarmenn heimsins. Það er því afar óeðlilegt að mínu mati að varnarmaður af hans kaliberi skuli ekki spila meira fyrir landsliðið," sagði Benitez.

Steven Gerrard fyrirliði Liverpool var á sama máli. "Ef ég skoða bestu varnarmenn í Evrópu og heiminum öllum - á ég bágt með að koma auga á einhverja sem eru betri en Jamie. Ég myndi sannarlega ekki skipta á honum og neinum öðrum leikmanni. Ég veit að Steve McClaren landsliðsþjálfari var á meðal áhorfenda á Anfield í gær og hann á eflaust eftir að eiga erfitt val fyrir höndum þegar hann velur hóp sinn næst," sagði Gerrard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×