Enski boltinn

Shevchenko: Ég er búinn að finna mig á Englandi

Shevchenko nýtur sín vel á Englandi eftir erfiðleika í byrjun
Shevchenko nýtur sín vel á Englandi eftir erfiðleika í byrjun NordicPhotos/GettyImages

Úkraínski framherjinn Andriy Shevchenko viðurkennir að hann hafi átt afar erfitt uppdráttar á fyrstu mánuðum sínum með Chelsea í ensku úrvalsdeildinni, en segir þá erfiðleika nú að baki - hann sé búinn að finna taktinn með liðinu.

"Þetta var afar erfitt fyrir mig í fyrstu, því ég þurfti alfarið að breyta mínum leik," sagði Shevchenko í samtali við ítalska útvarpsstöð í dag. "Ég varð að aðlagast enska boltanum og breyta öllu eftir því - og mér finnst það eðlilegt. Leiktíðin á undan hafði verið mér erfið líka þar sem ég var að spila á HM og var búinn að eiga við leiðinleg meiðsli. Nú er ég hinsvegar kominn yfir þetta og finn mig vel með liðinu og á í fínum samskiptum við Jose Mourinho knattspyrnustjóra," sagði Shevchenko og bætti því við að hann ætlaði ekki að fara aftur til AC Milan þó hann héldi reglulegu og góðu sambandi við Silvio Berlusconi.

"Ég mun aldrei gleyma árunum með Milan - þau voru frábær og mótuðu mig að þeim knattspyrnumanni sem ég er í dag. Ég ætla hinsvegar ekki að fara þangað aftur, því ég er búinn að koma mér fyrir á Englandi og vil nú halda áfram á þessari braut," sagði Úkraínumaðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×