Innlent

Ólafur F. furðar sig á umræðu um veikindi sín

Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi F-listans og óháðra sem tekur aftur sæti í borgarstjórn eftir helgina, furðar sig á umræðunni um veikindi sín og neitar að tjá sig frekar um málið að svo stöddu.

Ólafur hefur síðustu mánuðina verið í veikindaleyfi og hefur Margrét Sverrisdóttir setið í hans sæti á meðan. Hlutskipti hans verður töluvert annað nú en þegar hann sat síðast í borgarstjórn, þá var hann í minnihluta en nú verður hann í meirihluta. Margrét hefur síðan nýr meirihluti var myndaður verið forseti borgarstjórnar og tekur Ólafur við því embætti. Ólafur staðfesti í samtali við fréttastofu í dag að hann væri að mæta aftur til starfa og að hann byggist við að stýra sínum fyrsta fundi á þriðjudaginn. Ekki er þó enn ljóst hvort og þá hvernig nefndarskipan F-listans og óháðra mun breytast með komu Ólafs.

Ljóst er að innkoma Ólafs getur haft pólitísk áhrif. Ólafur hefur verið eindreginn stuðningsmaður þess að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni en Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur lýst því yfir að hann vilji að hann fari.

Fjallað hefur verið um læknisvottorð sem barst borgaryfirvöldum að Ólafur væri orðinn heill heilsu og hvort að eðlilegt sé að slíkt vottorð sé lagt fram þegar borgarfulltrúar mæta aftur til vinnu eftir veikindi. Í samtali við fréttastofuna furðaði Ólafur sig á umræðunni um en sagðist ekki tilbúinn að tjá sig nánar um málið að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×