Innlent

Nærri fimm segja sig úr Þjóðkirkjunni daglega

Birgir Baldursson, talsmaður Vantrúar.
Birgir Baldursson, talsmaður Vantrúar. MYND/Vilhelm

Trúleysingar í félaginu Vantrú fullyrða á vefsvæði sínu að þeir hafi skráð hartnær fimm hundruð manns úr Þjóðkirkjunni í sérstöku átaki til að skráð einstaklinga úr trúfélögum. Undanfarinn mánuð hafa þrír sagt sig úr Þjóðkirkjunni á dag í gegnum vefsvæði Vantrúar en í heildina tekið segja sig fimm úr Þjóðkirkjunni á degi hverjum.

Vantrú hafa hvatt fólk til að skrá sig úr Þjóðkirkjunni í á annað ár. Að sögn Birgis Baldurssonar, talsmanns Vantrúar, komst kippur í skráningar úr Þjóðkirkjunni eftir gleðigöngu samkynhneigðra í haust, en þá hafi fólk orðið ósátt við afstöðu Þjóðkirkjunnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands skráðu sig um 1450 manns úr Þjóðkirkjunni í fyrra.

Það sem af er árinu hafa 1019 skráð sig úr Þjóðkirkjunni í eitthvað annað trúfélag eða að öllu leyti úr trúfélagi. Þeim sem skrá sig úr Þjóðkirkjunni hefur fjölgað lítillega milli ára ef bornir eru saman fyrstu átta mánuðir beggja ára.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu fara nýfædd börn sjálfkrafa inn í trúfélag móðurinnar. Þetta gagnrýna Vantrúarmenn harðlega.

Sóknargjöld sem einstaklingur greiðir eru 791 króna á mánuði en þessa fjárhæð greiða allir einstaklingar 16 ára og eldri að sögn Biskupsstofu. Að sögn Halldórs Reynissonar, verkefnisstjóra hjá Þjóðkirkjunni, renna sóknargjöldin ekki einungis til sókna Þjóðkirkjunnar heldur greiða allir til síns trúfélags sama gjaldið. Þeir sem eru utan trúfélaga greiða þessa fjárhæð til Háskóla Íslands.

Fjögurra manna fjölskylda, foreldrar með tvo unglinga á heimili sem báðir eru eldri en 16 ára, greiðir samanlagt tæplega fjörutíu þúsund krónur á ári, annað hvort til trúfélags eða til Háskóla Íslands.

Allt þetta er innheimt af opinberum aðilum að sögn Halldórs Reynissonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×