Innlent

Aðeins tveir skólar með færri skóladaga en 170

MYND/Stefán

Einungis tveir grunnskólar í landinu voru með færri skóladaga en 170 á síðasta skólaári samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar. Fram kemur á vef hennar að báðir skólarnir séu með undanþágu vegna fámennis eða skipulags skólaaksturs.

Tölur Hagstofunnar sýna enn fremur að ekki var marktækur munur á fjölda skóladaga eftir bekkjum en meðalfjöldi skóladaga allra bekkja var 179.

Skóladagarnir skiptast í kennsludaga, prófdaga og aðra daga eins og starfsdaga og kom í ljós að kennsludagar voru frá 164 til 172 eftir bekkjum. Meðaltal prófdaga var einnig breytilegt eftir bekkjum. Fæstir voru prófdagar hjá nemendum í 1. bekk, eða 0,4 en flestir hjá 10. bekkingum, 7,4 að meðaltali.

Bent er á í frétt Hagstofunnar að erfitt geti verið að bera saman einstaka skóla landsins þar sem aðstæður séu ekki þær sömu í borg og í sveit. Skólaakstur sé dýr og því hafi grunnskólar í dreifbýli reynt að haga kennslutíma með tilliti til skólaksturs. Lítið sé til dæmis um eiginlega prófdaga í dreifbýlisskólunum. Þá eru dæmi um að yngri nemendur dvelji lengur í skólanum á degi hverjum en fái í staðinn færri kennsludaga, þannig að skilyrði laga um lágmarksfjölda kennslustunda eru samt sem áður uppfyllt.

Segir enn fremur á vef Hagstofunnar að flestir skólar uppfylli kröfur grunnskólalaga um lágmarksfjölda kennslustunda nemenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×